Hugsaðu eins og meistari
Hugsaðu eins og meistari

Ég á mér draum - mikilvægi markmiðasetningar!

30 September 2012 Anna Sigurðardóttir

Algengustu mistökin við markmiðasetningu

Flestir setja sér markmið sem hljóma á þessa leið:  ég ætla að léttast um 10 kg,  ég stefni á að lenda í þremur efstu sætunum, ég ætla að vinna meistaramótið í golfi í sumar.

Flest þessara markmiða sem talin eru upp hér að ofan eru niðurstöðumarkmið þar sem einblínt er á ákveðna lokaniðurstöðu. Kostirnir við niðurstöðumarkmið eru að þau geta verið hvetjandi í stuttan tíma. Þess konar markmið leiða því miður einnig oft til aukins kvíða þar sem margir óvissuþættir eru ekki skilgreindir til hlýtar t.d hvernig einstaklingurinn áætlar að ná markmiði sínu. Fleiri annmarkar við að setja sér einungis niðurstöðumarkmið eru að þau byggjast ekki eingöngu á frammistöðu viðkomandi heldur eru þau háð mörgum öðrum þáttum, t.d frammistöðu annarra keppanda, skoðana dómara, aðstæðna, dagsforms, meðfæddra eiginleika o.s.frv. Af því leiðir að þrátt fyrir að keppandi hafi spilað besta badmintonleik ævinnar þennan dag þá getur hann samt tapað og þar af leiðandi ekki náð niðurstöðumarkmiðum sínum. Slík markmið eru því ekki nógu leiðbeinandi og segja ekki til um þær leiðir sem árangursríkastar eru að því lokamarkmiði sem sett er né heldur hvernig best sé að framkvæma þá hegðun sem krafist er til að markmiðinu sé náð (t.d hvaða hegðun/hreyfingu þarf að framkvæma, hversu oft og hvenær til að ná þessu markmiði).

Kostir þess að setja sér vel skilgreind markmið

Með því að setja okkur skýr markmið náum við að beina athygli okkar að því sem skiptir máli til að ná þeim árangri sem við óskum okkur. Með markmiðasetningu er einnig auðveldara að velja á milli æskilegrar hegðunar til að koma okkur nær markmiðinu og óæskilegrar hegðunar sem hægir á eða kemur í veg fyrir árangur. Til dæmis að eyða ekki óþarfa orku í að fylgjast með öðru fólki eða keppendum og hvað þeir eru að gera heldur einbeita sér að sjálfum sér og að framkvæma þá hegðun sem stefnt er að ná eða keppt er um (s.s. golfsveiflu, líkamsstöðu os.frv). Skýr markmið auka einnig staðfestu og þrautsegju fólks til að halda sínu striki.

Með vel skilgreindum markmiðum er langtímamarkmiðið brotið niður í smærri einingar og verður það þar af leiðandi viðráðanlegra í framkvæmd. Viðráðanleg  og skýr markmið auka sjálfstraust fólks sem hefur svo jákvæð áhrif á frammistöðu og árangur.

Sá sem einbeitir sér að því hvernig hann muni framkvæma tilskilda hegðun eða hreyfingu á sem bestan máta á keppnisdegi hefur meiri líkur á að ná lokamarkmiði sínu en sá sem einblínir einungis á að halda á bikarnum í lok dags.

Góð og árangursrík markmiðasetning

Til þess að markmiðasetning hafi þau tilætluðu leiðbeinandi og hvetjandi áhrif sem þau eiga að veita þá þurfa þau að fela í sér eftirfarandi atriði:

  1. Markmið þurfa að fela í sér breytingar sem maður sjálfur getur framkvæmt en eru ekki háðar öðrum.
  2. Mikilvægt er að markmiðin séu raunhæf. 
  3. Þeim sé skipt í viðráðanlega áfanga t.d langtímamarkmið og skammtímamarkmið.
  4. Þau séu tímasett (hvar, hvenær og hvernig).
  5. Markmið skulu endurskoðuð reglulega meðan á ferlinu stendur og eiga að getað tekið breytingum.
  6. Markmið þurfa að vera SKRIFLEG!

Hægt er að nálgast ítarlegar upplýsingar um markmiðasetningu auk  verkefnablaða á vefsíðunni www.ham.reykjalundur.is. Smellt er á hlekkinn „meðferðarhandbók“ og er þá hægt að velja kafla úr handbókinni. Kafli tvö heitir „markmið“ en þar er að finna leiðbeinandi upplýsingar um ferlið.
Ég mæli með að hafist sé handa strax. Blýantur og blað tekið í hönd og skráð niður hvert þitt draumamarkmið er og hvernig þú áætlar að þú getir náð því.
 
Gangi þér vel

Anna Sigurðardóttir, Cand.Psych

Heimildir:

Weinberg, R. S, og Gould, D. (2011). Foundations of Sport and Exercise Psychology, (5. útgáfa). USA:  Human Kinetics
Inga Hrefna Jónsdóttir, Rósa María Guðmundsdóttir, Vera Siemsen og Þórunn Gunnarsdóttir (Ritstjórn). (2010). HAM: Handbók um hugræna atferlismeðferð, (6. útgáfa). Mosfellsbær: Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS