Laugardagurinn á Arnold Classic Europe

14 October 2012 Konráð Valur Gíslason

Þá er Arnold Classic Europe að ljúka, þegar þessi pistill er skrifaður er klukkan orðin 02.00 að staðartíma og mannskapurinn orðinn ansi þreytttur eftir annasaman dag.

Magnús Bess fór fyrstur Íslendinganna á svið klukkan 15.30. Maggi keppti í +90kg flokki öldunga (já öldunga) og voru að mig minnir 13 keppendur. Það voru 3 mjööög góðir "öldungar" í flokknum og svo var hart barist um sætin þar á eftir. Maggi Bess náði ekki inn í topp 5 að þessu sinni en mig grunar að hann hafi lent í 6-8 sæti. Maggi mætti aðeins minni en á síðasta móti en ámóti var hann með mjög gott samræmi, einnig hafði hann aðeins breytt "side chest" pósunni hjá sér og virtist það gera mikið fyrir hann. 

 Bodyfitness stelpurnar Einhildur Ýr, Hugrún Árnadóttir og Alexandra Sif áttu að keppa kl 15.30 í dag en miklar tafir á mótinu ullu því að þær stigu ekki á svið fyrr en kl 19.00. Þeir sem einhvern tímann hafa keppt í fitness eða vaxtarrækt vita hversu mikilvægt það er að tímasetja rétt kolvetnisinntöku og upphitun fyrir svið þannig að þegar það er búið að vera lyfta og pósa í 3 klst með einhverjum hléum þá hefur það óumdeilanlega áhrif á form keppenda, og auðvitað skap :). Alexandra Sif mætti í sínu besta formi og var vel skorin, Hugrún var ekki eins skorin og hún á að venjast og er líklegt að hitinn í Madrid ásamt fluginu og biðinni baksviðs hafi haft sitt að segja. Einhildur var alveg við sitt besta og vonandi heldur hún áfram í skurði fram að bikarmóti og mætir með rákir í lærunum.

Stelpan sem vann +168cm flokkinn í bodyfitness var einmitt að keppa í bikini fitness á Arnold Classic USA í april á þessu ári, á móti Magneu Gunnarsdóttur og Sigríði Ómarsdóttur en var þá dæmd niður fyrir vöðvamassa.

Expo-ið í Madrid var ekki eins flott og í Ohio USA, bæði minna í sniðum og eins voru framleiðendur ekki að gefa eins mikið og þeir gera í USA en pro keppendurnir voru á staðnum og hittum við menn eins og Ronnie Coleman og Victor Martinez. Það var gaman að sjá að Magnea Gunnarsdóttir og Katrín Edda voru mikið notaðar í auglýsingar á Scitec básnum en báðar eru þær sponsaðar af Sportlíf sem selur Scitec vörurnar.

Eftir að keppni lauk fór allur hópurinn saman út að borða. Fyrst var pizzastaður fyrir valinu en hætt var við á síðustu stundu og farið á sjávarréttastað en þegar kom í ljós að enginn talaði ensku og matseðillinn virtist aðallega bjóða uppá misjafnar útfærslur af kolkrabba tók Alexandra Sif málin í sín hendur og verður setningin "so this is the situation" lengi í minnum höfð :).

Nú voru allir orðnir mjög svangir og þreyttir og var því ákveðið að færa sig á Gino´s sem er ítalskur staður í næsta nágrenni. Á Gino´s áttum við skemmtilegt kvöld þar sem mótið, fitness og kökur voru rædd í þaula.

Þetta er búin að vera mjög skemmtileg ferð og ég held að allir geti farið nokkuð sáttir heim. Arnold Classic Europe var mjög sterkt mót í nánast öllum flokkum og var augljóst að það er gert mun meira út á skurð hér heldur en á Arnold Classic USA.