Kveðja frá Köben
Eftir að hafa verið skikkuð í æfinga-fækkun, af maddömmum leiklistaskólans, hefur Lína lært ýmislegt. Hún hefur lært hvað það getur verið gott fyrir vöðvana að hvíla, hvað hún eeelskar að lyfta þungum hlutum og leggja þá niður aftur, hversu mikilvægt það er að teygja, að hvert sett skiptir máli, að maður getur hlakkað meira til þess að fara á æfingar en nokkurn tíman jólanna (fröken langsokkur getur ekki talist jólabarn).
Hún hefur lært hvað þetta rúllerí gerir gott og að það er fínasta mál að prófa rólegri hluti eins og Bodyflow og Yoga inn á milli sem reyna á aðra þætti.
Langsokkur hefur þó oft komið sjálfri sér á óvart í teygjutímunum með eigin stirðleika, sérstaklega þegar kynsystur hennar, allavega tvöfalt eldri, virðast geta teygt úr sér líkt og engin séu mörkin. Það á sko ekki við um Línu. En framfarir eiga sér stað, samviskusemin skilar sér að lokum, liðleikinn mjakast hægt og þétt í átt að „eðlilegu ástandi“ og hugsar fröken Langsokkur sér gott til glóðarinnar að leggjast í enn meiri hamagang á næstu misserum.
Lína hefur nefninlega setið límd við tölvuskjáinn og fylgst með hasarkroppum klakans stíga á svið Háskólabíó og hnykla heflaða skrokkana. Þá fyllist sinnið nú aldeilis að spennu. Keppnisskapið læðist að Línu og er hún orðin spennt fyrir að bera á sig brúnkuna og smeygja sér í glimmerpjötlunar, pósa, brosa og undirbúa sig með miklu svitabaði fyrir sviðsframkomu. Lína Langsokkur sendir öllum keppendum innilega hamingjuóskir með árangurinn, þið eruð öll sigurvegarar og innblástur!