Stutt um sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi (in Icelandic)

24 April 2015 Ragga Magg

pumpingironSegja má að þann 9. maí árið 1982 hafi saga vaxtarræktar á Íslandi hafist formlega af fullri alvöru. En þennan afdrifamikla dag var allra fyrsta vaxtarræktarmótið á Íslandi haldið á Broadway og hver veit nema vaxtarræktarfræin sem dreifðust um heiminn með epísku kvikmyndinni Pumping Iron hafi þarna átt sér einhver ítök.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á ekki nema rétt rúmum þremur áratugum og er því óhætt að segja að saga vaxtarræktar á Íslandi sé ekki ýkja löng. En engu að síður þá hefur hún verið nokkuð viðburðarík og það sem meira er, þá getum við Íslendingar á litla Íslandi skammlaust hreykt okkur af því að hafa átt drjúgan þátt í þeirri þróun í vaxtarræktar og fitness heiminum sem átt hefur sér stað á heimsvísu hér á seinni tímum. En þótt ótrúlegt megi virðast þá er raunin sú að Íslendingar hafa í gegnum árin oftar en ekki átt heiðurinn af því að koma nýjum keppnisgreinum á laggirnar.

modelfitnessTilkomumesta fremdarverkið í þeim efnum er ef til vill tilkoma módelfitness, en Íslendingar voru allra fyrsta þjóðin til að halda keppni í módelfitness árið 2006 og í dag er þetta ein sú al vinsælasta og lang fjölmennasta vaxtarræktar/fitness keppnisgreinin um allan heim. Jafnframt voru Íslendingar fyrsta norðurlandaþjóðin til að hefja fitnesskeppni kvenna árið 1994 og sömuleiðis fyrstir til að halda fitnesskeppni karla með hindranabraut árið 1999 (Einar Guðmann, 2011).

Hins vegar, áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að því miður er lítið sem ekkert til af skriflegum heimildum um sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi og það litla sem finna má á prenti eru einkanlega gamlar blaða- og tímaritsgreinar. Sem að vísu voru ekki beinlínis skrifaðar með sögulegt gildi í huga þótt reyndar sé hægt að styðjast við þær í því skyni að nokkru marki. Því má vera ljóst að til þess að gera umræddri sögu góð skil hefði þurft að fara á stúfana og hafa uppi á fólkinu sem átti þátt í að skapa hana og færa í letur munnmæli þeirra af því hvernig sagan sú æxlaðist. En þessi sögulega atburðarás er svo að segja nánast eingöngu til í hugum þessa fólks í formi persónulegra minninga um löngu liðna tíma. Stóð því upphaflega til að meistaraverkefni mitt yrði heimildaritgerð um sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi. Aftur á móti þótti efnið ekki nógu viðamikið í verkefni af þeirri stærðargráðu og verður því ýtarleg frásögn að bíða betri tíma, hver veit nema maður skelli sér í það verkefni einhverntímann í náinni framtíð. Að því sögðu er réttast að halda þá áfram þar sem frá var horfið og reyna eftir fremsta megni að greina stuttlega frá þeirri frásagnarverðu sögu þótt frásögnin sú verði illu heilli heldur takmörkuð og fátækleg, eins og gefur að skilja í ljósi þess sem hér hefur verið reifað.

Í upphafi níunda áratugarins hefur eflaust orðið uppi fótur og fit hér á frónni þegar heilmikið líkamsræktaræði fór að grípa landsmenn og fjöldi líkamsræktarstöðva tók að spretta upp hver á fætur annari víðs vegar um landið. Enda var á þessum tíma hratt vaxandi áhugi á heilbrigðu líferni og líkamsrækt um allan heim og vitaskuld létu Íslendingar ekki á sér standa í þeim efnum. En fregnir herma að nokkur þúsund frónarbúar hafi þarna á þessum tíma verið byrjaðir að iðka líkamsrækt af miklu kappi. Samhliða þessum miklu stakkaskiptum fór vaxtarrækt sem keppnisíþrótt að ryðja sér til rúms á Íslandi. Á örskömmum tíma varð hún sífellt meira áberandi í fjölmiðlum og var vaxtarræktarfólkið þó nokkuð á milli tannanna á frónarbúum í þá daga. Vaxtarræktin fór því fljótt að njóta ört vaxandi vinsælda hér á landi þrátt fyrir að hafa vissulega einnig mætt talsverðri gagnrýni og fordómum.

andreascahlingEn frumkvöðlar í vaxtarrækt á Íslandi létu þó ekki íslensku þröngsýnis- og fordómasýkina í samlöndum sínum stöðva sig og settu á stofn fjölda vaxtarræktarklúbba um allt land. Sem síðan sameinuðust um að mynda með sér félagið Landssamband Vaxtarræktarmanna á Íslandi (LVÍ) þann 17. september árið 1981 og áður en langt um leið fengu þeir einnig formlega aðild að IFBB. Starf samtakanna hófst svo formlega með glæsilegri vaxtarræktarsýningu sem haldin var í Háskólabíói þann 29. nóvember árið 1981. Þar komu fram 15 Íslendingar, bæði karlar og konur ásamt hinum víðkunna atvinnu vaxtarræktarmanni Andreas Cahling sem hafði árinu áður hlotið titilinn heimsmeistari í vaxtarrækt (Mr. International in Bodybuilding). Þótti sýningin hafa heppnast með eindæmum vel og klöppuðu áhorfendur sýningarfólkinu óspart lof í lófa. En um það bil 600 manns flykktust að úr öllum áttum til að verða vitni af þessum sögulega viðburði sem tvímælalaust markaði upphaf mikillar byltingar í vaxtarrækt á Íslandi (sjá: ("Að skera sig niður," 1982, 15. janúar; "Body-Building í Háskólabíói: Íslenskir karlar og konur sýna," 1981, 27. nóvember;"Keppt í átta þyngdarflokkum á fyrsta Íslandsmótinu í vaxtarrækt," 1982, 7. maí; "Konur með krafta," 1982, 18. júní; "Vaxtarrækt," 1982, 8. júní; "Vaxtarrækt á Akureyri," 1981, 10. desember; "Vaxtarræktin bægir burt vetrarsútinni," 1982, 12. október).

HrafnhildurogGudmundurNokkrum mánuðum síðar stóð LVÍ fyrir allra fyrsta Íslandsmótinu í vaxtarrækt sem haldið var á veitingastaðnum Broadway á sunnudeginum þann 9. maí árið 1982 eins og fyrr var getið. Þetta fyrsta mót í sögu vaxtarræktar á Íslandi var strax haldið undir merkjum IFBB og fór það fram í einu og öllu eftir reglum þeirra. Alls mættu þarna til leiks tæplega 40 manns, sem verður að teljast nokkuð drjúgur hópur þátttakenda í ljósi þess að þetta var fyrsta keppnin sem haldin var í fremur lítið þekktri og verulega framandi íþrótt sem vaxtarræktin var hérlendis í þá árdaga. Keppt var í átta þyngdarflokkum, þar af kvenna, karla og unglinga og úr hópi sigurvegara stóð svo til að velja vaxtarræktarkonu og -mann ársins 1982. Það voru þau góðkunnu Hrafnhildur Valbjörnsdóttir og Guðmundur Sigurðsson fyrrum kraftlyftingamaður og ólympíufari sem urðu landsins fyrstu Íslandsmeistarar í sínum þyngdarflokkum og hömpuðu þau sömuleiðis fyrstu titlunum vaxtarræktarkona og -maður ársins 1982. Jafnframt þykir hér vert að nefna að á meðal keppenda voru þeir Einar Guðmann og Sigurður Gestsson sem í dag eru forsvarsmenn IFBB á Íslandi. Einnig stigu fram á sviðið þau Andreas Cahling og vaxtarræktarkonan Pernilla Gunnarsson sem sérstakir heiðursgestir og fluttu viðhafnarmikið sýningaratriði áhorfendum til mikillar ánægju, en húsið var troðfullt út úr dyrum og þótti mótið hafa tekist með prýði í alla staði (Sjá: (Baldur Hermannson, 1982, 12. október; Einar Guðmann, 2011; "Keppt í átta þyngdarflokkum á fyrsta Íslandsmótinu í vaxtarrækt," 1982, 7. maí; ÞR, 1982, 11. maí).

Í kjölfarið af þessu fyrsta vaxtarræktarmóti hélt vaxtarræktin sem keppnisíþrótt áfram að njóta vaxandi vinsælda hérlendis samhliða gríðarlega auknum áhuga fyrir almennri líkamsrækt í þjóðfélaginu. Árlega voru haldin mót ýmist í Reykjavík eða á Akureyri, keppendahópurinn stækkaði lítillega ár frá ári og fyrst um sinn var alla jafna troðið út úr dyrum á mótunum, sem vissulega endurspeglar vinsældirnar. Eins og nærri má geta sá LVÍ alfarið um mótshaldið á öllum mótum undir formerkjum IFBB allt þar til félagið varð gjaldþrota nokkrum árum síðar og var því lagt niður. En áður en langt um leið var Félag áhugamanna um vaxtarrækt (FÁV) stofnað til að taka við af LVÍ.

vaxt1991Hins vegar fór ekki betur en svo en að FÁV fór sömu leið og LVÍ og lagðist af vegna gjaldþrots í kringum árið 1991. Sama ár var svo þriðja félagið snarlega stofnað sem einnig var kallað Félag áhugamanna um vaxtarrækt. Þegar hér er komið við sögu var vaxtarræktin á Íslandi á vissan hátt byrjuð að staðna af óljósum ástæðum og upp úr aldamótunum 2000 byrjuðu vinsældir vaxtarræktarinnar hægt og bítandi að fara dvínandi. Árið 2004 var keppendafjöldinn orðinn verulega lítill sem varð sennilega til þess að stjórnendur FÁV neyddust til að leggja niður laupana. Þar með var vaxtarræktin orðin munaðarlaus á Íslandi og litlu munaði að hún hefði liðið undir lok hér á landi eftir heldur skammlífa tilveru (sjá: (Dagfari, 1984, 27. mars; "DV-myndbrot vikunnar," 1988, 2. júlí; Einar Guðmann, 2011; Einar Jónsson, 2006, 28. október; "Íslandsmeistaramót. Vaxtarrækt," 1986, 15. apríl).

Í framhaldinu af þessum atburði leitaði forseti IFBB til þeirra Einars Guðmanns og Sigurðar Gestssonar þar sem að þeir félagar höfðu þá um árabil séð um að halda fitness keppnir á Íslandi undir formerkjum IFBB og fór hann fram á að þeir tækju að sér vaxtarræktina. Að sjálfsögðu guldu þeir Einar og Sigurður jákvæði sitt við þeirri beiðni og má þar með segja að þarna á þessum tímapunkti hafi saga vaxtarræktar annars vegar og saga fitness hins vegar í rauninni sameinast í eina hér á Íslandi. En fram að þessu hafði mótshald í vaxtarrækt og fitness á vegum IFBB hér á landi verið tvískipt meðal annars vegna þess að stjórnendur FÁV höfðu einungis áhuga á að sjá um að halda vaxtarræktarmót en ekki fitness mót. Það var þó ekki eingöngu áhugaleysi stjórnenda FÁV á fitness móthaldi sem orsakaði þennan klofning, en til að útskýra nánar þessa tvískiptu sögu þarf að líta aðeins aftur í tímann og út fyrir landsteina. Þar sem að upphafið af fitness í vaxtarræktarheiminum á sér í rauninni ekki rætur sínar að rekja einvörðungu beint til vaxtarræktarinnar heldur stóð hin eiginlega uppspretta af hugmyndinni um fitness utan við vaxtarræktarheiminn (sjá:(Bolin, 2012; Einar Guðmann, 2011).

npclogoTil að gera langa sögu stutta þá var það ekki fyrr en í kringum árið 1990 sem IFBB ásamt dótturfélagi sínu NPC (National Physique committie) byrjuðu sumsstaðar í tilraunaskyni að bjóða uppá fitness sem keppnisgrein í Bandaríkjunum en þó eingöngu fyrir konur. Það varð svo ekki fyrr en fáeinum árum síðar, þann 3. desember árið 1995 sem fitness kvenna varð svo loksins að opinberri keppnisgrein innan IFBB og sama ár var einnig keppt í fyrsta sinn í fitness kvenna á Olympia. Líklegt þykir að vaxtarræktariðnaðurinn hafi tekið upp fitness keppnisgreinina fyrir konur vegna þess að fitnessútlitið þótti langtum fylgispakara við ríkjandi hugmyndir um kvenleika og var þar með álitið mun markaðsvænna heldur en vaxtarræktarútlitið, sem á þessum tíma var orðið töluvert ýktara en það var í upphafi. Jafnframt var búin að vera ört vaxandi eftirspurn í vaxtarræktarheiminum eftir keppnisgrein fyrir konur sem ekki höfðu áhuga á að verða jafn vöðvastæltar og vaxtarræktarkonurnar (sjá: (Bolin, 2012; IFBB, 2014a, á.á.)

WallyboykoÞað voru þó ekki stjórnendur IFBB og NPC sem eiga heiðurinn af tilkomu fitness heldur var það Ameríkani nokkur að nafni Wally Boyko. En allt fram til ársins 1985 var aðeins í boði fyrir konur að keppa annað hvort í vaxtarrækt eða bikiní- og fegurðarsamkeppnum og fannst Boyko vanta meiri fjölbreytni í keppnum fyrir aflvaxnar (athletic) konur í þessum dúr. Því hefur eflaust flögrað að honum sú hugmynd að koma glænýrri keppni á laggirnar sem hann kallaði Miss Fitness og varð hún fljótt gríðarlega vinsæl í Bandaríkjunum. Ekki leið svo á löngu áður en vinsældir Miss Fitness breiddust út fyrir Bandaríkin eins og eldur í sinu og var því alþjóðlegt félag stofnsett árið 1991 sem fékk heitið The International Fitness Sanctioning Body (IFSB) og er það starfandi enn þann dag í dag. Sterklega má svo gera ráð fyrir því að Miss Fitness keppnin hafi verið kveikjan að fitness greininni sem IFBB og NPC fóru að bjóða uppá nokkrum árum eftir að Boyco innleiddi þessa nýstárlegu hugsprettu (concept) sem fitnesskeppni var í þá daga (Bolin, 2012; Ms. Fitness Organization, á.á.)

SigurdurGestssonAð sjálfsögðu var síðan ekki við öðru að búast en að lýðhylli Miss Fitness næði á endanum til Íslands, enda heilsu- og líkamsræktariðnaðurinn byrjaður að blómstra talsvert á þessum tíma hér á landi. Þar með má vera ljóst að félagarnir Einar Guðmann og Sigurður Gestsson hafi séð að Miss Fitness keppnin myndi að öllum líkindum hljóta góðar undirtektir landsmanna og létu þeir því til skarar skríða og héldu fyrsta Miss Fitness mótið á Hótel Íslandi þann 27. nóvember árið 1994 undir formerkjum IFSB. Á því liggur svo enginn vafi að Einar og Sigurður hafi eitthvað haft fyrir sér í þessum efnum því ef marka má fjölmiðlaumfjöllun um keppnina þótti hún afar skemmtileg og vel heppnuð. Í Akureyrska dagblaðinu Dagur segir meðal annars: „Mótið gekk mjög vel fyrir sig og þessi íþrótt virðist greinilega eiga upp á pallborðið hjá íslendingum. Milli 500 til 600 fjörugir áhorfendur mættu til að hvetja stúlkurnar til dáða og er öruggt að framhald verður á þessari keppni“ ("Líkamsrækt: Vel heppnuð „Miss Fitness“," 1994, 7. desember), bls. 15) . Sem vissulega varð raunin því næstu fjögur árin sáu þeir Sigurður og Einar áfram um að halda IFSB fitnessmót á Íslandi, ýmist í Reykjavík eða á Akureyri og nutu þau náttúrulega ört vaxandi vinsælda eins og vænst var. Árið 1998 ákveða þeir hins vegar að hætta að halda fitnessmót á vegum IFSB og gera þess í stað samkomulag við stjórnendur IFBB um að taka að sér fitnessmóthald undir merkjum IFBB. En eins og fyrr var getið var IFBB fitnessmóthaldið algjörlega aðskilið IFBB vaxtarræktarmótshaldinu sem var á vegum FÁV (sjá: (Einar Guðmann, 2011; "Líkamsrækt: Vel heppnuð „Miss Fitness“," 1994, 7. desember; "Miss Fitness á Hótel Íslandi: Fegurð, þol og form - sjö stúlkur keppa," 1994, 25. nóvember; "Ms. Fitness: Öruggur sigur hjá Önnu," 1995, 24. október; "Stórviðburður í líkamsrækt í Íþróttahöllinni," 2000, 20. apríl; "Stuðlar að faglegri umræðu," 2001, 4. nóvember).

arnargrantí ljósi vaxandi vinsælda á fitnesskeppnum kvenna á þessum árum hér á Íslandi má svo leiða líkur að því að þeir Sigurður og Einar hafi talið að sniðugt væri að bjóða einnig upp á fitnesskeppni fyrir karla. En fram til þessa hafði karlmönnum hins vegar ekki staðið til boða að keppa í fitness innan IFBB og líklega ekki heldur hjá neinum öðrum vaxtarræktarfélögum. Það var þeim kumpánum þó ekki til neinnar fyrirstöðu og réðust þeir í að halda í fyrsta sinn á Íslandi fitnessmót fyrir karla og auðvitað konur líka þann 18. apríl árið 1999, sem líkast til var þá einnig í allra fyrsta skiptið í heiminum sem boðið var upp á fitnesskeppni fyrir karla, eða í það minnsta á vegum IFBB. Eins og raunin varð með fitness kvenna átti fitness karla fljótt vaxandi vinsældum að fagna hér á Frónni og eftir nokkur ár fór velgengni karla fitness bæði hér á landi og í nokkrum nágrannalöndum að vekja mikla athygli á heimsvísu. Sem varð síðan eflaust til þess að þann 27. nóvember árið 2005 tóku stjórnendur IFBB þá formlegu ákvörðun gera fitness karla að opinberri keppnisgrein hjá IFBB. Hér þykir þó rétt að geta þess við að karla fitnessgreinin sem þarna var gerð að opinberri keppnisgrein var heldur frábrugðin fitnessgreininni sem Einar og Sigurður hleyptu af stokkunum á sínum tíma. Þótt líklega hafi íslenska fitnessgreinin að einhverju leiti verið kveikjan að þessari fitnessgrein sem á eftir kom. Til frekari glöggvunar má þess einnig geta að þetta var ekki eina keppnisgreinin sem gerð var að opinberri keppnisgrein hjá IFBB þennan dag á árlegri ráðstefnu IFBB sem haldin var í Shanghai þetta árið. Því um nokkra hríð áður en ráðstefnan átti sér stað höfðu í raun tvær nýjar karlagreinar verið að ryðja sér til rúms hér og þar í heiminum. Annars vegar umrædd fitnessgrein og hins vegar grein sem í dag er kölluð klassísk vaxtarrækt (men's classic bodybuilding) (sjá: (Einar Guðmann, 2004, 2011; IFBB, 2014b).

ifbbAð þessu sögðu er hins vegar mál til komið að víkja talinu aftur að því sem hér dreif á daga árið 1999 á Íslandinu góða. En þetta ár var heldur viðburðarríkt í sögu fitness hér á landi þar sem stofnað var til annarrar fitnesskeppni sem ekki var viðurkennd af hálfu IFBB og var þar með ekki á vegum Einars og Sigurðar. Stofnendur þessarar nýju fitnesskeppni voru meðal annars engir aðrir en kraftajötnarnir Magnús Ver Magnússon, Hjalti „Úrsus“ Árnason og Andrés Guðmundsson. Fyrsta mótið sem þeir kappar skipulögðu var haldið í Laugardalshöllinni þann 6. nóvember og fór það fram undir því einfalda nafni Fitness-keppnin 1999 (eða Fitness 99) og fengu sigurvegararnir titlana herra og ungfrú Fitness. Ári síðar fóru þeir svo að kenna fitnessmótin sín við Galaxy sem breyttist síðan skyndilega í IceFitness nokkrum árum seinna (sjá: (Einar Guðmann, 2011; "Líkamleg hreysti," 1999, 5. nóvember; "Með krafta í kögglum," 1999, 9. nóvember). Sé mark takandi á fjölmiðlum kom nafnabreyting þessi sennilega til vegna þess að ekki hafði verið sótt um leyfi til að nota Galaxy nafnið hjá Galaxy Fitness sambandinu sem upprunnið er frá Bandaríkjunum ("Misnotkun á fitness-móti," 2002, 23. janúar).  

En engu að síður er þó óhætt að láta þess getið að þessi tvö markverðu fitnessmót sem hér voru haldin árið 1999 hafi trúlega markað mikil vatnaskil í sögu fitness á Íslandi því í kjölfarið vaknaði enn meiri áhugi á fitnesskeppnum og bæði þátttakendum og áhorfendum fór ört fjölgandi með hverju árinu. Enda mikið um að vera í fitnessmótaldinu hér á Frónni næstu árin sem á eftir komu, þar sem árlega voru haldin samtals fjögur mót, tvö að vori til og tvö á haustin. Annars vegar Íslands- og bikarmót á vegum IFBB sem félagarnir Sigurður og Einar héldu áfram að hafa umsjón með og hins vegar Íslands- og bikarmót sem heljarmennin þrjú höfðu á sinni könnu. Þó er rétt að nefna að eflaust má um það deila hvort þetta hafi raunverulega verið Íslenska fitnessheiminum til framdráttar. En Einar Guðmann vill meina að þetta hafi haft þær afleiðingar fyrir fitnessíþróttina að mun erfiðara varð að fá stuðningsaðila og útvega verðlaun fyrir keppendur því fitnessmótin sem hann ásamt Sigurði stofnuðu til höfðu ekki lengur neina sérstöðu í huga stuðningsaðila. Þó er nokkuð ljóst að þrátt fyrir þessa erfiðleika með útvegun á verðlaunum og stuðningsaðilum sem Einar segir að þarna hafi skapast vegna tilkomu Galaxy/Icefitness mótanna þá átti sér samt sem áður stað mikill uppgangur í fitnessíþróttinni hvað varðar áhuga á fitness almennt sem og fjölda keppenda og áhorfenda (sjá: (Einar Guðmann, 2011; "Fitness," 2001, 1. apríl; "Fjölmenni var á Íslandsmóti Galaxy-sambandsins í hreysti um helgina. Sigurlína og Kristján sigruðu.," 2001, 23. október; "Kröftugir kroppar," 2003, 7. apríl).

Allt annað var aftur á móti upp á teningnum hvað varðar þróun vaxtarræktarinnar á þessu tímabili og mætti réttilega leiða líkur að því að þessi mikli uppgangur fitnessíþróttarinnar sem átti sér stað á þessum árum hafi átt róttækan þátt í ört hrakandi vinsældum vaxtarræktarinnar sem varð henni síðan nánast að falli. Hvað liggur þarna raunverulega að baki verður hins vegar að teljast sem hulin ráðgáta, en jafnframt verður þó að segjast að trúlega er ekki hægt að skella sökinni alfarið á öfgafullt eðli vaxtarræktarinnar sem reyndar fer stigvaxandi með hverju árinu, þótt eflaust spili það samt sem áður stórt hlutverk. En eins og áður sagði var vaxtarræktinni á Íslandi þó blessunarlega forðað frá glötun þegar Einar og Sigurður tóku hana upp á sína náðararma árið 2004. Upp frá þessu og fram til dagsins í dag hafa þeir Einar og Sigurður því séð um allt sem við kemur mótshaldi í bæði fitness og vaxtarrækt á vegum IFBB ásamt nánast allri annarri starfsemi sem þessu tengist og er útlit fyrir að þeir muni halda því áfram um langa framtíð (sjá: (Einar Guðmann, 2011; Einar Jónsson, 2006, 28. október).

icefitnesswbffEins og staðan er í dag er IFBB eina starfandi fitness og vaxtarræktarfélagið hér á landi og jafnframt það allra langlífasta í sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi, en skemmst er frá því að segja að af ótilgreindum ástæðum tilkynntu mótshaldarar Icefitness skyndilega á Facebook síðu sinni í nóvember árið 2010 að keppnin væri komin í tímabundið frí. Sterklega má þó gera ráð fyrir því að þrátt fyrir að keppendum hafi allt frá upphafi sífellt farið fjölgandi ef á heildina er litið, þá sé það fyrst og fremst alltof fámenn þjóð sem er því til fyrirstöðu að hér geti þrifist og dafnað fleiri en eitt vaxtarræktar og fitnessfélag. Því til frekari sönnunnar má meðal annars nefna örstutta tilvistarbaráttu fitness og vaxtarræktarfélagsins WBFF (World Bodybuilding & Fitness Federation) sem kom hér í einni svipan fram á sjónarsviðið árið 2011 með heilmiklu pompi og pragt. En um það bil tveimur árum síðar var félagið horfið á bak og burt jafnskótt og það birtist. Rétt er þó að minnast á að hér spilar sömuleiðis inní ákveðin pólitík sem ríkir alla jafna á milli vaxtarræktar og fitness félaga um allan heim og berjast þau almennt innbyrðis um keppendur. Auk þess einsetja flest þeirra sér mjög strangar reglum um að leggja keppendur sína í keppnisbann verði þeir uppvísir að því að keppa hjá öðrum félögum. Eðlilega sjá forsvarsmenn IFBB þar með engan hag í því að stuðla að uppbyggingu annarra vaxtarræktar og fitnessfélaga né einstakra mótshaldara hér á landi, enda keppendafjöldinn ekki það stór að hann sé „til skiptanna“, ef svo mætti að orði komast (sjá: (Auður Albertsdóttir, 2015, 16. apríl; Einar Guðmann, 2011; "Hasarkroppar í Hörpu," 2011, 16. ágúst).

Hvað varðar þróun og sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi er þó aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Hver veit nema vaxtarræktar og fitnesskeppendum fari að skipta fleiri þúsundum hér á litlu Frónni eftir einhverja áratugi og hérna verði þá þar með kominn almennilegur grundvöllur fyrir öflugri samkeppni meðal nokkurra vaxtarræktar og fitnessfélaga. Með þeirri vonglöðu framtíðarsýn þykir viðeigandi að reka smiðshöggið á þennan pistil sem í stuttu máli hefur rakið eitthvað af því helsta sem orðið hefur til tíðinda í sögu vaxtarræktar og fitness á Íslandi.

 

Heimildir

Að skera sig niður. (1982, 15. janúar). Morgunblaðið, p. 34.

Auður Albertsdóttir. (2015, 16. apríl). Íslendingar frumkvöðlar í fitness, mbl.is.

Baldur Hermannson. (1982, 12. október). Stöngin er helgidómur, Dablaðið Vísir - DV, pp. 36-37.

Body-Building í Háskólabíói: Íslenskir karlar og konur sýna. (1981, 27. nóvember). Morgunblaðið, p. 47.

Bolin, A. (2012). Buff Bodies and the Beast. Emphasized Femininity, Labor, and Power Relations among Fitness, Figure, and Women Bodybuiling Competitors 1985-2010. In A. Locks & N. Richardson (Eds.), Critical Readings in Bodybuilding (pp. 29-57). New York: Routledge.

Dagfari. (1984, 27. mars). Vaxtarrækt nýtur vinsælda í Broadway, Dagblaðið Vísir - DV, p. 4.

DV-myndbrot vikunnar. (1988, 2. júlí). Dagblaðið Vísir - DV, p. 24.

Einar Guðmann. (2004). Nýr keppnisflokkur í karlafitness. Retrieved from Fitnessfréttir website: http://fitness.is/nyr-keppnisflokkur-i-karlafitness/

Einar Guðmann. (2011). Spurt og svarað um fitness- og vaxtarrækt. Retrieved from Fitnessfréttir website: http://fitness.is/spurt-og-svarad-um-fitness-og-vaxtarraekt/

Einar Jónsson. (2006, 28. október). Íslandsmótið í Ice Fitness í Laugardalshöll. Rokk og stæltir kroppar, Blaðið, p. 44.

Fitness. (2001, 1. apríl). Mosfellsblaðið, p. 15.

Fjölmenni var á Íslandsmóti Galaxy-sambandsins í hreysti um helgina. Sigurlína og Kristján sigruðu. (2001, 23. október). Morgunblaðið, p. 18.

Hasarkroppar í Hörpu. (2011, 16. ágúst). Fréttablaðið, pp. 17-18.

IFBB. (2014a). IFBB rules. Section 4: Women's fitness Retrieved 7. apríl, 2015, from http://www.ifbb.com/wp-content/uploads/Women_Fitness_Rules_2014.pdf

IFBB. (2014b). IFBB rules. Section 5: Men's fitness Retrieved 13. apríl, 2015, from http://www.ifbb.com/wp-content/uploads/Mens_Fitness_Rules_2014.pdf

IFBB. (á.á.). Our Disciplines Retrieved 7. apríl, 2015, from http://www.ifbb.com/our-disciplines

Íslandsmeistaramót. Vaxtarrækt. (1986, 15. apríl). Þjóðviljinn, pp. 7-8.

Keppt í átta þyngdarflokkum á fyrsta Íslandsmótinu í vaxtarrækt. (1982, 7. maí). Morgunblaðið, p. 31.

Konur með krafta. (1982, 18. júní). Helgarpósturinn, pp. 4-5.

Kröftugir kroppar. (2003, 7. apríl). Morgunblaðið, p. 30.

Líkamleg hreysti. (1999, 5. nóvember). Dagblaðið Vísir - DV, p. 30.

Líkamsrækt: Vel heppnuð „Miss Fitness“. (1994, 7. desember). Dagur, p. 15.

Með krafta í kögglum. (1999, 9. nóvember). Morgunblaðið, p. 73.

Misnotkun á fitness-móti. (2002, 23. janúar). Dagblaðið Vísir - DV, p. 15.

Miss Fitness á Hótel Íslandi: Fegurð, þol og form - sjö stúlkur keppa. (1994, 25. nóvember). Dagblaðið Vísir - DV, p. 19.

Ms. Fitness Organization. (á.á.). Ms. Fitness IFSB/NFSB Information, 5. apríl 2015, from http://www.getbig.com/info/msfitness/msfitnessinfo.htm

Ms. Fitness: Öruggur sigur hjá Önnu. (1995, 24. október). Dagur, p. 7.

Stórviðburður í líkamsrækt í Íþróttahöllinni. (2000, 20. apríl). Morgunblaðið, p. 18.

Stuðlar að faglegri umræðu. (2001, 4. nóvember). Morgunblaðið, p. 8.

Vaxtarrækt. (1982, 8. júní). Morgunblaðið, p. 26.

Vaxtarrækt á Akureyri. (1981, 10. desember). Íslendingur, p. 5.

Vaxtarræktin bægir burt vetrarsútinni. (1982, 12. október). Dagblaðið Vísir - DV, p. 37.

ÞR. (1982, 11. maí). Íslandsmótið í vaxtarrækt: Guðmundur og Hrafnhildur sigruðu, Morgunblaðið, pp. 24-25.