Stutt um sögu vaxtarræktar á heimsvísu (In Icelandic)
Það leikur ekki á tveim tungum að vaxtarræktin á sér afar langa, margslungna og heldur betur magnaða þróunarsögu þar sem engu munaði að sagan sú hefði aldrei orðið að veruleika. Því ef satt skal segja þá vilja margir halda því fram að ef ekki hefði verið fyrir tilstuðlan nokkurra örlagaríkra og þýðingarmikilla atburða í framgangi mannkynssögunnar þá er með öllu óvíst að vaxtarræktin hefði nokkurn tímann orðið til.
Rekja má uppruna hennar allt aftur til tíma forn Grikkja, en þeir voru fyrstir manna til þess að hugkvæmast það að vöðvastæltur mannslíkami hefði fagurfræðilegt gildi í sjálfu sér. Er sú hugmyndafræði talin vera mikilvægur vendipunktur og jafnframt upphafið af þróunarsögu vaxtarræktarinnar. En segja má að þarna sé fræið sem vaxtarræktin kom til með að vaxa upp frá, sett í jörðu fyrir þúsundum árum síðan þar sem það lá lengi vel í djúpum dvala nærri því gleymt og tröllum gefið. Allt þar til seint á 19. öld þegar vöðvastælt hreystimenni (strongman) að nafni Eugen Sandow stóð því næst nakinn á sviði og líkti eftir klassískum höggmyndum forn Grikkjanna. Á því örlagaþrungna andartaki sem Sandow setti sig í fyrstu stellinguna og hnyklaði vöðvana var vaxtarræktin fædd. Áhorfendur stóðu agndofa og horfðu með aðdáun á þennan sérstaka og nýstarárlega viðburð, fólki þótti tilhugsunin við að sjá klassísku skúlptúrana lifna við heillandi, töfrandi og spennandi og sótti í að berja það augum. Vegna tilkomu þessa merka atburðar hefur Sandow gjarnan verið gefinn heiðurinn af fæðingu vaxtarræktarinnar og þar með verið titlaður sem faðir vaxtarræktarinnar. Jafnframt var hann fyrstur manna til að gefa vaxtarræktinni nafn sitt þegar hann gaf út bókina „Bodybuilding“ árið 1904.
Hins vegar ef ekki hefði verið fyrir Florenz nokkurn Ziegfeld er óvíst að þessi atburður hefði átt sér stað, en það var hann sem átti hugmyndina af þessu nýstárlega sýningaratriði sem var hluti af heimssýningu sem haldin var í Chicago árið 1893 sem Ziegfeld sá um að halda og skipuleggja ásamt mörgum öðrum (LaVelle, 2011; Locks, 2012). Eins og LaVelle orðar á svo tilkomumikinn og ljóðrænan hátt í skrifum sínum um þróun vaxtarræktarinnar „Eugen Sandow was given credid for unearthing the ancient Greek seed that flowered into bodybuilding. But it was his manager Florenz Ziegfeld who stumbled across it.“ (LaVelle, 2011: 15).
Þannig vildi svo ólíklega til að það var í raun Ziegfeld, maður sem kom úr skemmtanabransanum sem var fyrstur til þess að uppgötva að líta mætti á stórfenglegan og vöðvastæltan mannslíkamann sem loka útkomu, takmark og/eða markmið með líkamlegri þjálfun í stað þess að vera einungis hjáverkun af þjálfun til þess að efla líkamlega afkastagetu fyrir aðrar íþróttagreinar, eins og hafði alla tíð tíðkast fram til þessa (LaVelle, 2011). „A muscular build was no longer simply a means. It could also now be, in and of itself, an end. This, in the most basic sense, is the essence of bodybuilding: it is the creation and exhibition of a muscular build.“ (LaVelle, 2011: 15). Í framhaldi af þessum örlagaríku viðburðum sem á svo ótrúlegan og tilviljunarkenndan hátt samtvinnuðust og í sameiningu mörkuðu upphaf vaxtarræktarinnar átti sér stað röð af mikilvægum og sögulegum atburðum sem einnig spiluðu stóran þátt í áframhaldandi þróun á vaxtarræktinni (LaVelle, 2011).
Því miður væri alltof langt mál að rekja alla þá sögu hér og greina frá þeim fjölmörgu merku mönnum og atburðum sem tvímælalaust settu svip sinn á þróunarsögu vaxtarræktarinnar. Því verður látið nægja að stikla á all verulega stóru í þeim efnum hér í þessum pistli, en fyrir þá sem hafa áhuga á að kafa dýpra í saumana á sögu vaxtarræktar er bent á heimildalistann hér í lokin.
Meðal þeirra allra áhrifamestu manna sem við koma þessari margbrotnu sögu eru óneitanlega þeir víðkunnu bræður Joe og Ben Weider ásamt stórfrægu lifandi goðsögninni Arnold Schwarzenegger, sem fyrir utan að vera heimsfrægur Hollywoodleikari er einna þekktastur í vaxtarræktarheiminum fyrir að hafa loksins náð að innleiða vaxtarræktina að hluta til inní meginstrauma samfélagsins með tilkomu kvikmyndarinnar Pumping Iron sem kom út árið 1977. Rétt ber þó að nefna að þarna stóðu einnig önnur og stærri öfl að baki þessa fremdarverks sem óneitanlega áttu stóran hlut að máli, nefnilega gríðarleg vitundarvakning og áhugi almennings á líkamlegu hreysti (fitness) og heilsu ásamt aukinni hrifningu af vöðvum. En þá telst hins vegar engin frásögn af sögu vaxtarræktarinnar fullgerð án þess að minnast á nokkur af helstu afrekum þeirra Weider bræðra. Þar á toppinum situr án efa sá merkilegi viðburður þegar þeir bræður stofnuðu í sameiningu Alþjóðasamband vaxtarræktarmanna árið 1946 (International federation of bodybuilding and fitness: IFBB) sem tvímælalaust markaði mikilvæg tímamót í sögu vaxtarræktarinnar.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð heldur gáfu þeir bræður einnig út fjöldan allan af vaxtarræktartímaritum, voru frumkvöðlar í framleiðslu á fæðubótarefnum og lyftingarbúnaði ásamt því að Joe skapaði hið víðfræga þjálfunarlögmál sem hann kallaði „Weider training principles“. Svo ekki sé síðan minnst á eina stærstu, frægustu og eftirsóttarverðustu vaxtarræktarkeppni allra tíma sem skírð var því viðeigandi nafni Mr./Miss Olympia. En þeir bræður eiga heiðurinn af því að hafa komið á fót þeirri þjóðsögulegu keppni sem haldin var í fyrsta sinn þann 18. september árið 1965 í New York. Síðan þá hefur hún verið haldin á hverju ári og mæta þar allra bestu atvinnumennirnir og -konurnar í vaxtarrækt og fitness og keppa um Ólympíutitillinn. En titlinum fylgir sá verðskuldaði heiður að vera sá allra besti af þeim bestu og er draumur allra sem stunda vaxtarrækt eða fitness af ástríðu og metnaði að vinna þennan háttvirta titil ( International federation of bodybuilding and fitness, 2014; LaVelle, 2011; Locks & Richardson, 2012).
Þeir bræður voru því svo sannarlega áberandi í heimi vaxtarræktarinnar og vilja raunar margir meina að þeir hafi bókstaflega drottnað yfir þessum heimi allt frá þeim örlagaríka degi er þeir settu IFBB á laggirnar. En undir formerkjum IFBB urðu þeir mjög skjótlega að verulega öflugu leiðandi afli í öllu alsherjar fyrirkomulagi, reglugerð og stjórnun á öllum sviðum í gjörvöllum vaxtarræktar- og fitness heiminum. Allar götur síðan hafa nær öll önnur vaxtarræktar- og fitnessfélög hvaðan af úr heiminum fylgt eftir þeirra fordæmi og gera enn þann dag í dag. Jafnframt börðust þeir bræður og Arnold allir mikið fyrir því að upphefja vaxtarræktina og unnu markvisst að því að vekja áhuga fólks á henni. Ekki einungis sem nýstárlegri keppnisíþrótt heldur einnig sem heilsusamlegum og heilbrigðum lífsstíl til að rækta bæði líkama og sál og efla þannig andlega og líkamlega heilsu og bæta lífsgæði.
En þrátt fyrir langa og harða báráttu hefur því miður aldrei almennilega tekist að fá vaxtarræktina til að höfða til fjöldans og falla alfarið inní ríkjandi samfélagslegan meginstrauminn. Samt sem áður er óhætt að segja að án þessara þriggja merku manna hefðu síðastliðin 70 ár í þróun og sögu vaxtarræktarinnar að öllum líkindum orðið allt önnur en raun hefur orðið á, og vaxtarræktin sennilega ekki náð þeim vinsældum og útbreiðslu sem hún þó náði. Þótt hér séu vissulega hvoru tveggja vinsældir og útbreiðsla háð talsverðum takmörkum þar sem vaxtarræktin sem keppnisíþrótt er sannarlega þess eðlis að flokkast seint sem almennt eðlilegt (normal) hátterni þar sem hún stendur einfaldlega alltof langt utan þessa samfélagslega meðalmennsku norm-ramma sem virðist vera svo rammbyggður að engin leið er að brjóta hann niður (LaVelle, 2011; Locks & Richardson, 2012).
Kvennavaxtarræktin á sér svo einnig sína margslungnu og verulega umdeildu sögu sem þróaðist raunar svo hratt á skömmum tíma víðsvegar um Bandaríkin og restina af heiminum að það hefur reynst þrautinni erfiðara að rekja sannar sögulegar rætur hennar. Þó þykir nokkuð víst að konur fóru ekki að stunda nútíma vaxtarrækt sem keppnisíþrótt af neinu ráði fyrr en í lok áttunda áratugarins. Fram að því höfðu konurnar einna helst verið í hlutverki sem fylgihlutir eða m.ö.o. augnakonfekt, helst vafðar utan um fætur vaxtarræktarmanna á ljósmyndum vaxtarræktartímaritanna í þeim karlaheimi sem vaxtarræktin var í öndverðu. Eins og á við um karlana þykir líklegt að aldrei í sögu mannkynsins hafi konur stundað það markvisst að byggja upp vöðvamassa í fagurfræðilegum tilgangi fyrr en með tilkomu þessarar umdeildu íþróttar. Hins vegar er vitað til þess að náttúrulega vöðvamiklar og hraustar konur hafi lengi verið til, gott dæmi þess er forngoðsögnin um Amasónurnar og sögulegar heimildir um hreystikonur (strongwomen) sem sýndu tilkomumikil styrktar afrek í farandssirkusum á nítjándu öldinni (sjá Felkar, 2012; Female Single Combat Club, 2013). Aftur á móti varð engin þessara hreystikvenna að upphafskonu kvennavaxtarræktarinnar.
Ólíkt upphafi karla-vaxtarræktarinnar þar sem Eugene Sandow var upprunalega hreystimaður sem sýndi jafnan frækilegar dáðir sínar og hreystibrögð ásamt smá vöðvahnyklunum á sirkussýningum áður en hann komst í kynni við Ziegfeld. Vissulega má samt sem áður segja að uppruni bæði karla- og kvennavaxtarræktarinnar renni saman í sameiginlegt upphaf sem að hluta til er eins konar arfleið aflrauna, kraftlyftinga og sirkussýninga (Bolin, 2012; Dobbins, 2004, 2013; Everts, 2009; Kennedy, 2008; LaVelle, 2011; Todd & Harguess, 2012).
Í upphafi var þó kvennavaxtarræktin eða réttara sagt eins konar forfari hennar talsvert ólík hinni eiginlegu nútíma kvennavaxtarrækt og var í raun langtum meira í ætt við fegðurðarsamkeppnir. Á meðan karlavaxtarræktin í grundvallaratriðum varð mjög fljótlega ekki svo frábrugðin nútíma karlavaxtarræktinni. Í fyrstu kvennakeppninni sem haldin var árið 1903 og öllum keppnunum sem þar fylgdu í kjölfarið næstu áratugina komu keppendurnir iðulega fram í bikiníi á háum hælum og var dæmt eftir andlitsfegurð, kvenleika og hreysti (fitness) en ekki vöðvastælingu (muscularity). Enda tíðkaðist ekki að konur lyftu lóðum í þá daga og var raunar almennt talið á þessum tíma að lóðalyftingar væru heilsuspillandi fyrir konur. Þær sem tóku þátt í þessum keppnum voru því grannvaxnar og mjúkar, eða þ.e.a.s. ansi langt frá því að vera mjög vöðvastæltar og skornar. En þrátt fyrir algjöran skort á vöðvamassa voru þessar fegurðarkeppnir nánast frá upphafi yfirleitt kenndar við vaxtarrækt í bland við fegurð og voru meðal annars kallaðar nöfnum eins og body beautiful, miss physique og bodybuilding/beauty show. Það var svo ekki fyrr en þann 17. júní árið 1978 sem fyrsta alvöru kvennavaxtarræktarkeppnin var haldin í Ohio þar sem keppendur voru fyrst og fremst dæmdir út frá vöðvastælingu (muscularity) og samræmi (proportion) en aftur á móti engin áhersla lögð á andlitsfegurð og hina hefðbundnu ríkjandi staðla um kvenleika líkt og áður hafði tíðkast. Alla tíð síðan hafa dómforsendur í kvennavaxtarræktinni verið gríðarlega mikið deilumál og þá sérstaklega þær sem snúa að kvenleika (femininity) og karlmennsku (masculinity), en svo virðist sem að samhljóða niðurstaða í þeim málum sé hvergi í augsýn enn sem komið er. Enda fyrirfinnst eflaust fátt í þessum heimi sem að ögrar hinu ríkjandi kynja normi og lögmálum um kvenleika og karlmennsku eins mikið og kvennavaxtarræktin (Bolin, 2012; Everts, 2009; Robinson, 2010; Todd, 2000; Todd & Harguess, 2012).
En sé svo litið aðeins um öxl í þróun og sögu kvennavaxtarræktarinnar eru fjölmargir einstaklingar ásamt ófáum atburðum bæði stórum og smáum sem höfðu þýðingarmikil áhrif á framgang þessarar brotamiklu sögu. Þó hefur sviðsljósið aðallega beinst að þremur konum, þeim Lisu Lyon, Rachel McLish og Cory Everson. Hafa þær gjarnan fengið hvað mestan heiðurinn af því að hafa upphafið kvennavaxtarræktina og aukið á vinsældir hennar og samþykki meðal almennings og fjölmiðla í þá árdaga þegar kvennavaxtarræktin var að byrja skipa sér sess sem viðurkennd og samþykkt íþrótt og athæfi í samfélaginu. Óneitanlega áttu þær allar tvímælalaust stóran þátt í að upphefja kvennavaxtarræktina á árunum 1979 til 1989 og urðu raunar andlit hennar út á við. Lisa Lyon átti til dæmis stóran þátt í að koma á fót þeirri hugmynd að kvennavaxtarræktin þyrfti ekki endilega að vera talin refhvörf (oxymoron) (þ.e. ákveðið stílbragð sem snýr að því þegar orðum gagnstæðrar merkingar er skotið saman, í þessu tilfelli kvenleiki og vöðvastæling (femininity and muscularity)). Hún var þannig að öllum líkindum fyrsta vaxtarræktarkonan sem gat sannfært þónokkurn hluta af almenningi um að stæltur kvennmanslíkami gæti verið aðlaðandi í augum karlmanna og bæði viðeigandi og eftirsóknarvert markmið fyrir konur að stefna að.
Vaxtarræktarheimur kvenna varð síðan verulega lánsamur þegar hin stórglæsilega Rachel McLish varð fyrsta Miss Olympia árið 1980 sem varð til þess að kvennavaxtarræktin fór loksins virkilega að blómstra. Aftur á móti var skærasta stjarnan í kvennavaxtarræktinni á níunda áratuginum án efa Cory Everson, sem vann Miss Olympia sex ár í röð frá 1984 til 1989. Að mati margra náði hún að sameina kvenleika, góða vöðvastærð og skurð. Á margan hátt hefur Cory verið talin hliðstæða Arnold Schwarzeneggers í vaxtarræktarheimi kvenna, með persónutöfrum sínum, bókum, myndböndum og framkomu í sjónvarpinu tókst henni að koma kvennavaxtarræktinni að hluta til í náðina hjá fjöldanum, eða allavega um stundar sakir (Dobbins, 2013; Kennedy, 2008; Schwarzenegger & Dobbins, 1998; Todd & Harguess, 2012).
Á hinn bóginn, þó svo að þessar þrjár konur hafi allar átt mikilvægan þátt í sögu kvenna-vaxtarræktarinnar, þá var engin af þeim raunveruleg upphafskona hennar. Þann heiður á kona að nafni Doris Barrilleaux sem hefur jafnan verið kölluð „The First Lady of Bodybuilding“. Sú kjarnakona var sannur frumkvöðull, brautryðjandi og leiðtogi í vaxtarræktarheimi kvenna og tók hún virkan þátt á öllum sviðum vaxtarræktarinnar. Satt að segja var Doris óneitanlega lang sýnilegasti talsmaður og baráttukona kvennavaxtarræktarinnar og hefur líkast til enginn lagt eins mikið af mörkum og hún í að upphefja vaxtarrækt kvenna og berjast fyrir tilvistarrétti hennar í samfélaginu. Ef ekki hefði verið fyrir ákafa viðleitni hennar, kappkostun og linnulausa framtakssemi er erfitt að ímynda sér að kvennavaxtarræktin hefði náð að rísa upp sem svo kröftugt menningarlegt afl á níunda áratuginum eins og hún gerði (Todd & Harguess, 2012). Nú brennur hins vegar á vörum margra víðs vegar um heiminn spurningin um hvort að endalok kvennavaxtarræktarinnar séu í aðsigi, en segja má að hún hafi að vissu leiti verið á undanhaldi síðan fleirri keppnisgreinar tóku að bætast við í vaxtarræktarheiminum sem fljótlega fóru að varpa stórum skugga á vaxtarrækt kvenna með hratt vaxandi vinsældum sínum. Aftur á móti geta auknar vinsældir annarra keppnisgreina framyfir vaxtarrækt kvenna seint talist sem nægjanleg ástæða fyrir því að kvennavaxtarræktin sé nú mögulega að fara líða undir lok. Enda hefur hin upprunalega og hefðbunda fitnessgrein kvenna (íþróttafitness) fengið að lifa góðu, fámennu og lítt vinsælu lífi allt frá því að greinin sú lét til sín taka uppúr 1990 og ekki er útlit fyrir öðru en að svo verði áfram. Undanfarið hafa því margvíslegar ástæður fyrir þessari dapurlegu þróun kvennavaxtarræktarinnar verið á lofti í orðræðu meðal fólks um víða veröld (Bolin, 2012; Claudia, 2012; Hunter, 2013). En hvað verður um kvennavaxtarræktina veit sennilega enginn að svo stöddu. Eitt er þó víst að vaxtarræktarkonur ásamt sporgöngumönnum hennar vinna nú hörðum höndum að því að berjast gegn þessu kynjamisrétti og óréttlæti sem mun á endanum vonandi ná að snúa við þessu afturhvarfi til fortíðar! (Sjá: www.toobigfortheworld.com)
Heimildir
- Bolin, A. (2012). Buff Bodies and the Beast. Emphasized Femininity, Labor, and Power Relations among Fitness, Figure, and Women Bodybuiling Competitors 1985-2010. In A. Locks & N. Richardson (Eds.), Critical Readings in Bodybuilding (pp. 29-57). New York: Routledge.
- Claudia, R. (2012). Rumor: Is this the last year for IFBB Female Bodybuilding? Retrieved from examiner.com website: http://www.examiner.com/article/rumor-is-this-the-last-year-for-ifbb-female-bodybuilding
- Dobbins, B. (2004). Women's bodybuilding. A revolution in progress. Retrieved 20. júní, 2013, from http://www.bodybuilding.com/fun/billdobbins8.htm
- Dobbins, B. (2013). The history & evolution of women's bodybuilding. Retrieved 20. júní, 2013, from http://muscle-insider.com/features/history-evolution-womens-bodybuilding
- Everts, K. (2009). The origin and decline of female bodybuilding. S.I: S.N.
Felkar, V. (2012). Marginalized Muscle: Transgression and the Female Bodybuilder. Ignite, 4(1), 40-49.
- Female Single Combat Club. (2013). Iron ladies of the old times. Retrieved 20. júní, 2013, from http://www.fscclub.com/history/iron-e.shtml
- Hunter, S. (2013). Not simply Women's Bodybuilding: Gender and the female competition categories. Women's studies Theses, Paper 27.
- International federation of bodybuilding and fitness. (2014). Retrieved 5. maí, 2014, from www.ifbb.com
- Kennedy, R. (2008). Encyclopedia of bodybuilding: The complete A-Z book on muscle building. Mississauga, ON: Robert Kennedy Publishing.
- LaVelle, G. (2011). Bodybuilding: Tracing the evolution of the ultimate physique. U.S.A.: Romanart Books.
- Locks, A. (2012). Introduction. In A. Locks & N. Richardson (Eds.), Critical Readings in Bodybuilding (pp. 1-18). New York: Routledge.
- Locks, A., & Richardson, N. (2012). Critical readings in bodybuilding. New York: Routledge.
- Robinson, D. (2010). Campaign for Women's Bodybuilding: Interview with the true champion of women's bodybuilding Kellie Everts. Retrieved 20. júní, 2013, from http://www.bodybuilding.com/fun/campaign-for-womens-bodybuilding-interview-kellie-everts.htm
- Schwarzenegger, A., & Dobbins, B. (1998). The new encyclopedia of modern bodybuilding. New York: Simon & Schuster.
- Todd, J. (2000). Bodybuilding. In T. Pendergast & S. Pendergast (Eds.), St. James Encyclopedia of Pop Culture. Volume 1, A-D
- Detroit: St. James Press.
- Todd, J., & Harguess, D. (2012). Doris Barrilleaux and the beginnings of modern women's bodybuilding. Iron Game History, 11(4), 7-21.