Hámarks árangur næst þegar hugur og líkami vinna saman.
Rannsóknir hafa sýnt að það er nauðsynlegt að þjálfa hugarfarið samhliða íþróttaiðkun fyrir þá sem ætla sér að ná langt í sinni íþrótt.
Þegar hugarfarið er þjálfað íþróttinni í hag, þá er það ekki einungis út frá því hvernig nálgast á æfingarnar, leikkerfi eða mataræði, heldur einnig til að byggja sig upp andlega fyrir keppnisdaginn. Það þarf að þjálfa upp hugarfarið jafnt á við líkamann fyrir keppni t.d hvernig hægt sé að stýra hugarfarinu svo keppandi nái að halda streitustiginu hæfilega miklu svo honum líði vel og hægt sé að ná hámarks árangri við framkvæmd íþróttarinnar.
Keppnisdagurinn
Þegar keppandi mætir á mótsstað þarf hann að geta stýrt hugsunum sínum í þá átt að þær séu honum í hag, séu hvetjandi og uppbyggilegar. Þegar við tölum við sjálf okkur á jákvæðan hátt hefur það hvetjandi og jákvæð áhrif á sjálfstraust okkar, sem veldur því að við getum skilað af okkur betra verki. Ef keppandi hugsar neikvætt í eigin garð (t.d. hinir eru betri en ég, ég klúðra þessu) þá eykur það streitu og kvíða. Of mikil streita getur haft áhrif á frammistöðu íþróttamanns í keppni á tvo vegu. Annars vegar veldur streita aukinni vöðvaspennu, þreytu og samhæfingarörðugleikum, hins vegar getur streita valdið breytingum og minnkun á athygli, einbeitingu og sjónsviði.
Það er því mikilvægt fyrir íþróttafólk að getað tekið eftir því þegar það byrjar að hugsa neikvætt í eigin garð svo það geti tekið stjórn og leiðbeint sjálfu sér í að hugsa á jákvæðari máta. Til dæmis er hægt að notast við þá hugsun (eða að ímynda sér) að besti vinur manns sé að ræða við mann og tileinka sér þau hvetjandi orð sem vinurinn lætur falla í manns garð. Einnig er gott að minna sig á hverju maður hefur í raun stjórn á. Íþróttamenn hafa ekki stjórn á ytri aðstæðum eins og hugsunum né hegðan annarra hvorki keppanda né dómara, aðstæðum á keppnisstað né veikindum. Aftur á móti getur íþróttamaður tekið stjórn á eiginn hugsunum, líðan, sjálfstrausti, hegðun, framkvæmd íþróttarinnar og eiginn framkomu. Þegar íþróttamaður hefur gert sér grein fyrir því hverju hann stjórnar og hverju ekki þá getur hann lagt áherslu á að einbeita sér að sjálfum sér, eiginn hugsun, líðan og hegðun.
Önnur leið til að minnka streitu er sú að breyta um hegðun eða stöðu. Til dæmis keppandi sem er of upptekinn af öðrum keppendum ætti að finna sér leið til að útiloka hina keppendurnar úr augsýn (eða huga). Það getur hann gert með því að koma sér fyrir í einrúmi, hlusta á tónlist eða snúa sér frá þeim. Það eru til ýmsar aðrar leiðir sem geta hjálpað fólki að minnka streitu, til dæmis djúpöndun, hugleiðsla og markviss hugarþjálfun.
Að lokum, þarf íþróttamaður að minna sig á að keppnisdagurinn er uppskerudagur! Það er sú stund þar sem keppandi framkvæmir íþrótt sína helst sjálfvirkt eftir endurteknar æfingar undanfarnar vikur eða mánuði, með vellíðan og gleði. Þegar keppandi er kominn fyrir framan dómara og áhorfendur þá er ekki tími til að hugsa um hvað þyrfti að gera betur heldur einblýna á hvað er gott, hvað hann hefur afrekað og að njóta stundarinnar. Þegar keppandi nýtur sín við að framkvæma íþrótt sína þá slaknar betur á líkamanum og keppandinn getur náð því besta úr eiginn líkama, getu og hæfni, auk þess sem útgeislun verður sem mest.
Eftir að keppni líkur – ný markmið
Íþróttafólk sem stundar miklar og strangar æfingar yfir langt tímabil eru undir eðlilegum kringumstæðum undir miklu álagi og oft í sínu besta líkamlega formi þegar það keppir. Eftir að keppnistímabili lýkur er eðlilegt að æfingum fækki og neysla heilsusamlegs mataræðið verði ekki jafn markviss. Í kjölfarið gerist það oft að líkaminn tekur breytingum í útliti og formi. Þá er hætta á að íþróttamenn geti upplifað tómleika, depurð og jafnvel þunglyndi þegar það hefur ekkert til að stefna að og miklar líkamlegar breytingar verða.
Til að koma í veg fyrir að breytingarnar verði of miklar andlega sem og líkamlega þá er mælt með því að sett séu ný markmið og æfingarprógram undirbúið til að vinna eftir að loknu móti. Það minnkar líkur á að of mikil viðbrigði verði á líkama og andlegri líðan keppandans. Ný markmið veita íþróttamanni einnig hvatningu og drifkraft til að vinna að nýju markmiði hvort sem það er innan íþróttagreinarinnar eða öðru málefni í lífi hans (t.d félagslífi, vinnu eða fjölskyldu).
Gangi ykkur vel,
Anna Sigurðardóttir
Cand.Psych
Heilsustöðin, sálfræði- og ráðgjafaþjónusta
Heimildir:
Weinberg, R. S, og Gould, D. (2011). Foundations of Sport and Exercise Psychology, (5. útgáfa). USA: Human Kinetics
Inga Hrefna Jónsdóttir, Rósa María Guðmundsdóttir, Vera Siemsen og Þórunn Gunnarsdóttir (Ritstjórn). (2010). HAM: Handbók um hugræna atferlismeðferð, (6. útgáfa). Mosfellsbær: Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS