Í Danmörku er hjólað allt árið
Í Danmörku er hjólað allt árið

Vill maður fjöll eða mótvind?

10 October 2012 Lína Langsokkur

Á milli keppna á sér stað svokallað uppbyggingatímabil hjá flestum keppendum. Margir nota tímann til að bæta samsvörun líkamans, stækka ákveðna vöðva sérstaklega, jafnvel að stækka alla vöðva.

Pússa til það sem betur mætti fara, allt til að koma sem best út á sviðinu. Þá er líka mikilvægt að líða vel í eigin líkama, ef ekki mikilvægast.

Þó svo Langsokkur sé nú virkilega sterk og leiki sér með 250 kg í fótapressunni, þá hefur hana alltaf vantað nokkuð upp á liðleikann. Þetta sést greinilega í pósum hjá henni og ef líkamsstaðan er vel skoðuð má greina mjög stífan brjóstkassa. Langsokkur hefur sett sér það markmið að bæta liðleika á þessu uppbyggingatímabili, kjötsöfnunin þarf ekki að vera mikil en ekki er verra að hún eigi sér stað.

Ein liðugNú þegar maddömmurnar í leiklistaskólanum eru farnar að kvarta virkilega undan stífleika í kroppi fröken Langsokks er kominn tími á að bæta ástandið. Þær gerðust jú svo djarfar þarna í skólanum að benda Langsokki á að til að hylla Díonísus (guð leiklistar) á sem bestan máta ætti hún að minnka lóðafikt eins mikið og hugsast getur og einbeita sér fyrst og fremst að yoga, teygjum og dansi. Langsokkur getur nú varla hugsað sér lóðalausa tilveru svo hún mætir tillögunum á miðri leið og fækkar stundum lóðalyftinga úr 6 niðurí 5 sinnum í viku hverri. Þar að auki verður yoga tekið með trompi og mætt a.m.k einu sinni í viku, teygjur vel yfirfarnar eftir átök og jú gamla góða rúllan til að losa bandvefinn. Rúlluna ættu nú flestir ræktarunnendur að kannast við, allavega á landinu góða og er fröken Langsokkur staðráðin í því að hún geri kraftaverk fyrir skrokkinn. Skemmtilegar rúlluaðferðir má t.d líta á hér. Það má því vænta að sjá Línu Langsokk gangandi „dans-splittskrefum“ upp og niður Norðurbrú á komandi vikum, eins og rauðu flétturnar hafi ekki verið nógu áberandi fyrir.

Hingað er haustið líka komið, þó ekki með jafnmiklum blæstri og á Fróni, en Kaupmannahöfn kólnar ögn með hverjum deginum. Þá mætti halda að flestir færu nú að setja hjólið inn í geymslu, setjast upp í bílinn eða taka strætó hvert sem ferðinni er heitið. Nei sagan er nú önnur, þessir Danir hjóla sko í öllum veðrum og vindum, eins og gesturinn frá Íslandi spurði fröken Langsokk um daginn „hjóla þeir bara svona allan ársins hring þó það sé rigning og ógeð?“. Langsokkur gat ekki logið og svaraði bara „já já“. Það er nefninlega eitt annað sérstakt hérna við þessa borg, að hér er alltaf mótvindur, sama í hvaða átt þú ferð. Á leiðinni í skólann er mótvindur og á leiðinni heim, á leiðinni í ræktina og á leiðinni til baka, hér býr mótvindur í allar áttir. Það er kannski ekki að undra að þeir passi allir svona vel ofan á hjólin, hér er ekki bara sykurskattur heldur sífelldur mótvindur, var einhver að tala um „fjalllaust land“ draumur hins hjólandi manns?

Heilsuvæðingin hefur líka náð hingað þó svo hún sé ekki jafn áberandi og á hinu ástkæra og má finna fyrir henni í hinum ýmsu myndum. Til að nefna eru „útiæfingatæki“ á einum leikvellinum í görðum hverfisins, þar má sjá fríhendis skíðavél og upphífingahjálpara auk annarsskonar rólutækja sem við myndum kalla brennslutæki ef þau væru staðsett annarsstaðar.

Á hlaupabrettunum í ræktinni má svo finna litla auglýsingamiða sem eru að mörgu leiti „djarfari“ en þeir sem við erum vön á Íslandi. Þar má lesa „ertu komin með bumbu?“, „slappaðiru aðeins of mikið af í sumarfríinu?“, „ertu búin/n að fitna í fríinu“, „þarftu að grennast?“. (Svo ekki sé minnst á andstæðuna „bikiní árstíðin er búin hvernig væri að fá sér kleinuhring“ og mynd að vínabrauði og kleinuhring í 7/11.)

Langsokki brá heldur betur í brún þegar hún las þessar fyrirsagnir fyrst því hún er jú vön aðeins mildara orðalagi. Þá rakst hún í aðra auglýsingaherferð sem hangir á veggjum ræktarinnar, herferð gegn steranotkun „sterar eru sterkari en þú“, „þekkir þú einhvern í áhættuhópi“, „leitaðu þér hjálpar“, „3 stig steraneyslu“ o.s.frv. Lína hefur ekki rekist á sambærilega herferð á Íslandi en það væri kannski í lagi að opna umræðuna um steranotkun frekar.     

Graskerunum fjölgar ört í búðunum hér og eru þau mörg lygilega stór, Hrekkjavaka er á næsta leiti en Lína hefur heldur hugsað sér gott til glóðarinnar varðandi eldamennsku og hollustubakstur sem involverar grasker, graskershafragrautur, graskersofnréttur, graskerssalat, graskerskaka, baka? Það verður spennandi að sjá hvað fæðist í eldhúsi Línu en hún hefur nóg til að vera spennt yfir þessa dagana, meðal annars á hún von á komu yfir-Idolsins til borgarinnar, sjálfum Arnold. Ætli hún smelli ekki mynd af kappanum, fái hann til að skrifa nafnið sitt og deili með ykkur?