Katrín Edda og Conny

01 December 2012 Katrín Edda Þorsteinsdóttir

Ýmislegt hefur drifið á daga mína síðan síðast. Dagarnir líða nokkurn veginn eins. Skólinn, æfingar, lærdómur, harðsperrur á miðvikudögum eftir fótaæfingu þriðjudagsins, helgar, jólaskraut. Jólamarkaðir fara að poppa upp á hverju horni hvað úr hverju og Tryggvi er farinn að heimta að skreyta íbúðina með eins og einu hreindýri eða tveimur.

Mér tókst að sturta salernisstein niður í klósettið og þurfti því að borga pípara tæpar tuttuguþúsund krónur til þess að losa greyið úr klósettinu okkar. Ég er orðin mjög flink í að sippa, get sippað tvo hringi í einu án þess að blása úr nös og mér gengur orðið ágætlega að skilja hvernig alkaline batterí virka.

Bikarmótið var fyrir tæpum tveimur vikum og við hjúin sátum æst við tölvuskjáinn að bíða eftir upplýsingum,rsz  mg 6697 fréttum og myndum af mótinu sérstaklega þar sem litla lillan mín hún Magnea Gunnarsdóttir var að taka þátt. Facebook sá um að maður fengi allt beint í æð. Myndir af stæltum skrokkum, poppkexum, og bikiníklæddum ofurskvísum blöstu við hvert sem maður leit. Ég varð undir eins ofsalega meðvirk og vildi helst bera á mig brúnkukrem og hoppa brosandi á svið ekki seinna en strax. Mikil ósköp sem það gladdi mig svo þegar ég fékk þær fréttir að Magnea hefði unnið og væri bikarmeistari í sínum flokk. Þessi snúlla kemur svo í heimsókn til okkar 15. desember og við förum svo öll þrjú til Íslands 21. desember.

Ég hlakka mikið til að sjá fjölskylduna mína og vini og ber þar einna helst að nefna köttinn minn Blossa. Hann kann nefnilega ekki á Skype svo samskiptin milli mín og hans hafa verið mjög takmörkuð síðan ég flutti út.

Í seinustu viku fór ég á æfingu sem fyrr og þá kom þjálfari, að nafni Conny, að mér og spurði hvort ég væri að undirbúa mig fyrir keppni. Ég svaraði því neitandi og sagði henni eitthvað frá mér. Hún sagðist vilja gera plan handa mér í sameiningu við vin sinn sem væri þjálfari til 23 ára og spurði mig hvort ég vildi koma með henni til hans og tala við hann seinna í vikunni.
 
Við fórum svo saman að hitta vininn, Julian, sem vinnur í fæðubótarefnisbúðinni Gladiator (þið verðið að prófa að fara á heimasíðu búðarinnar, gladiators-karlsruhe.de, það kemur svo ofsalega fyndið intróhljóð).Vinurinn reyndist vera um 130 kílóa ítalskt vöðvatröll sem talaði ekki stakt orð í ensku en virtist þó vera nokkuð vel að sér í þjálfunarfræðum. Ég sagði honum á nánast fullkominni þýsku hvað mig langaði til þess að bæta og saman útbjuggu þau lyftingarplan fyrir mig. Kniebeugen er hnébeygja á þýsku, vissuði það?

Ég fór svo í gær og lyfti undir tilsögn Conny og mun gera það aftur í dag. Það var mjög skemmtileg tilbreyting að hafa kvenkyns einstakling í sama sal og ég og ekki er verra að hún heitir næstum sama nafni og uppáhalds þjálfarinn; Konni.

Hún nefndi við mig í gær að hún þekkti mann sem vissi mikið um fitnessmót í Þýskalandi og ég ætti að fara með henni að spjalla við hann. Hver veit nema ekki líði á mjög löngu áður en ég verð farin að hlaupa um þýsk svið í glimmerbrók með brúnkukrem og bros á vör. En þangað til mun ég halda áfram að skilja eggjahvítur frá rauðunni, finna leiðir til þess að minnka koltvíoxíð í andrúmsloftinu og reikna nýtni geimflauga.