Kata í Þýskalandi

08 November 2012 Katrín Edda Þorsteinsdóttir

Þá er ég búin að búa í Þýskalandi í rúman mánuð. Aldrei verið svo lengi frá Íslandi. Ég er flutt að heiman í fyrsta skiptið og það til lands sem ég hef aldrei komið til áður og tala ekki einu sinni tungumálið.

Ég bý í tiltölulega lítilli borg sunnarlega í Þýskalandi sem telur þó 300.000 íbúa sem við litlu Íslendingarnir myndum þó telja ágætis fjölda. Ég ákvað að kveðja litla ísmolann til þess að byrja meistaranám mitt í vélaverkfræði á sviði endurnýjanlegrar orku við tækniháskólann Karlsruhe Institute of Technology. Ég hefði líklega aldrei þorað ein í þetta ævintýri og er svo heppin að ævintýrasjúki kærastinn minn með þetta-reddast-attitjúdið er hérna með mér að læra rafmagnsverkfræði.

Hér er allt lífrænt, vænt og grænt og varla hægt að kaupa uppþvottalög án þess að hann sé úr endurvinnanlegum umbúðum, úr lífrænum hráefnum og helst að hægt sé að borða hann. Þjóðverjar eru líka æstir í að endurvinna allt. Það er ekkert pláss undir vaskaskápnum okkar því við þurfum að vera með fjórar ruslatunnur vegna flokkunaráráttu Þjóðverjanna. Hér hjóla allir allt. Að sjá feitan Þjóðverja er jafn algengt og að sjá ótanaðan strák í World Class Laugum. Eitt af því fyrsta sem við gerðum var því að kaupa hjól. Borgin er flöt og ekkert til sem heita brekkur og ekkert mál að skjótast til Frakklands eins og við gerðum til dæmis í seinustu viku. Það er þó hægara sagt en gert að kaupa í búið á hjóli. Ég hjólaði óvart á bíl í fyrradag með skúringarmoppu og fötu undir hendinni. Passa mig næst.

Við fundum mjög fína rækt nálægt íbúðinni okkar með nýjustu tækjum og fíneríi. Hún er með einkennisorðin „GET SEXY.“ og klæðist starfsfólkið bolum með þessum ágætu orðum og eru víðs vegar áminningar á veggjunum ef ég skyldi nú gleyma því að ég er nú í ræktinni einungis til þess að verða sexí. Ég vissi líka ekki hvort ég ætti að gráta eða hlæja þegar ég komst að því að á efri hæðinni mættu bara konur æfa en neðri hæðin væri svokölluð „unisex“ hæð. Köllum er sumsé stranglega bannað að fara upp á efri hæðina (og eru augngotur gefnar til þeirra karlmanna sem gera kálfaæfingar í stiganum) en konurnar mega, ef þær vilja, æfa með karlpeningnum niðri. Á konuhæðinni er þyngsta handlóðið 12 kg, enda er alvitað að konur geta bara lyft bleikum eins kílóa lóðum, margs konar skringileg brennslutæki, ótal rassatæki, einn ljósabekkur og nokkrir nuddstólar. Þarna hamast þýskar stelpur á skíðavélinni allan daginn á meðan á neðri hæðinni æfa strákar í stuttermabolum. Og ég.

Ég hef orðið vör við nokkra stara þegar ég geri FST-7 æfingar og í dag spurði maður mig hvað í ósköpunum ég væri að gera þegar hann sá mig pósa og teygja á milli settanna. Ég reyndi að útskýra fyrir honum óteljandi kosti, gagnsemi og hamingju FST-7 æfingarkerfisins.

Svo er ég byrjuð að sippa. Já. Ég keypti mér sippuband fyrir tveimur vikum og hef ekki hætt að hoppa síðan. Ég ætla samt ekki að verða skrýtna stelpan í World Class sem sippar alltaf í salnum þegar ég kem heim. Geymi það í Þýskalandi. Annars sýnist mér Þjóðverjinn ekki vera alveg jafn lóðaglaður og við litla þjóðin í norðri. Þvílíkur brandari sem það væri ef einhverjir af íslensku ræktardurgunum kæmu hingað í sínum Flex bolum og ég tala nú ekki um allar stelpurnar!

Allt er til í matvöruverslununum; glúteinlaus bjór, mjólkurlaust skyr, 2 kg agavesýróp og endalaust af ódýru, góðu, lífrænu grænmeti og ávöxtum. Allt til nema eggjahvítur! Ísland er kannski ískalt og rándýrt en það má eiga það að það er alltaf hægt að kaupa gerilsneyddar eggjahvítur beint af hænunni. Annars gengur allt frábærlega. Ég elska Þýskaland og er byrjuð að babla á þýsku, sippa í hringi, stækka axlirnar mínar, læra um sólarorku, borða súrkál og uppgötva alls konar nýja hluti og mun ég reglulega koma með nýjustu fréttir af lífinu hér í Karlsruhe hvort sem við kemur persónulegu meti í sippi eða öðru.